Sagan öll

Það hefur mikið verið rætt um hleranir að undanförnu eftir að Guðjón Friðriksson kastaði sprengju sinni inn á fjölmiðla á síðasta vori. Sitt sýnist vissulega hverjum um mál þetta enda eitt hið furðulegasta og jafnvel fáránlegasta því svo virðist sem allir hafi verið að hlera alla alls staðar á þessum tímum húsmóðurinnar í Vesturbænum og kalda stríðsins. Það fyndna í málinu er eins og nýlega kom fram hjá Birnu Þórðardóttur að í rauninni hefðu allir vitað af þessu og í sjálfu sér ekkert verið að taka það of alvarlega. Sjálfur minnist ég þess sem unglingur þá búandi í Reykjavík að það var alltaf sjálfsagt þegar herstöðvaandstæðingar héldu útifundi við Miðbæjarskólann að einhverjir fóru að bandaríska sendiráðinu en Heimdallarkrakkarnir hlupu líka niður í rússneska sendiráðið til að kasta á það grjóti og eggjum. Það var, held ég, opinbert leyndarmál að í næsta húsi við mig nánar tiltekið við Bjarkargötuna, þar sem bjó háttsettur rússneskur sendiráðsstarfsmaður, væri rússneskt njósnahreiður. Að minnsta kosti mun bíll sem þar stóð löngum fyrir utan hafa komið eitthvað við sögu í Hafravatnsmálinu fræga. Einnig held ég að flestir hafi vitað að svokölluð upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna stundaði líka njósnir. Einhvern veginn þótti manni þetta allt svolítið hlægilegt en jafnframt dálítið spennandi unglingnum því vitaskuld held ég að maður hafi aldrei innst inni trúað því að nokkur Íslendingur gæti nokkurn tímann viljað þjóðinni sinni svo illt að komast undir kommúnisma. Raunar held ég líka að Sovétríkin hafi aldrei haft nokkurn áhuga á því þar sem Ísland var á þeim tíma á vel skilgreindu áhrifasvæði Bandaríkjanna. En svo virðist sem einhverjir hafi trúað því í alvöru að kommúnistar hafi ætlað að taka hér völdin með byltingu og því er þetta mál þegar við horfum á það í dag alveg grafalvarlegt þegar ljóst er að lykilmenn í stjórnmálum og efnahagslífi landsins létu njósna um pólitíska andstæðinga.

Annar flötur þessa sama máls er í rauninni olíusamráðsmálið. Það er eins og menn haldi í dag að olíusamráðið sé eitthvað nýtt, svo er alls ekki. Upphaflega má rekja það til dálítið furðulegs kerfis sem komið var á þegar olíuviðskipti hófust við Rússa. Svo var látið heita sem íslenska ríkisstjórnin keypti inn olíuvörur frá Rússlandi í skiptum meðal annars fyrir ullarvörur og fisk. Olíukaupasamningur þessi var síðan framseldur eins og það var kallað til olíufélagana þriggja sem eiginlega áttu sér miklu frekar pólitískan uppruna en efnahagslegan. Olíuviðskiptin voru í raun kjarninn í starfsemi að minnsta kosti tveggja stórra efnahags- og stjórnmálaflokka sem ekki kepptu um völdin heldur deildu þeim enda sér hver maður nú hversu asnalegt var að hafa þrjú olíufélög sem keyptu inn olíuna af sama aðila á sama verði og seldu hana síðan neytendum auðvitað á sama verði, öll með stór dreifikerfi og öll með höfuðstöðvar í sama plássinu, gott ef ekki við sömu götuna. Símhleranirnar fyrrnefndu voru í raun aðeins eitt tiltölulega lítið dæmi um það vald sem þessar verslunarklíkur höfðu í þjóðfélaginu. Saga símhlerananna verður ekki slitin úr samhengi við aðra þætti í sögu þeirrar margháttuðu valdníðslu og spillingar sem ríkti hér í marga áratugi eftir stríðið. Alþingi verður að hysja upp um sig buxurnar og gangast fyrir því að okkur verði sögð sagan öll um þetta tímabil. Þjóðin á heimtingu á því.

REYNIR ANTONSSON

stjórnmálafræðingur.

Frá Reyni Antonssyni:


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ég veit nú ekki alveg hvað þið eruð að lesa í stjórnmálafræðinni Reynir, en ég er ekki viss um að þú hafir lesið nógu vandlega. Skrif þín benda til þess. Sagnfræðingurinn sem þú ert að burðast við að nefna heitir Guðni Th. Jóhannesson.

Gústaf Níelsson, 17.4.2007 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband