Ungliðar Drottins

Undanfarin ár höfum við oftlega heyrt fréttir af skólum í múslimalöndum þar sem börnum allt frá unga aldri er kennt að þylja utanbókar uppúr Kóraninum á arabísku - sem þau stundum jafnvel skilja ekki - samfara fræðslu um það hversu Vesturlönd séu guðlaus og vond. Í þessum löndum þar sem vonleysið eitt ríkir fellur innrætingin í einstaklega frjóan jarðveg og píslarvottar eru framleiddir á færibandi. En minna er rætt um það sem í okkar eigin garði grær. Á Netinu má nú finna athyglisverðar heimildarmyndir um það sem er að gerast í landi Sáms frænda þar sem runnagróðurinn blómstrar í hvítum húsum. Þar í landi eru menn trúaðir sem hvergi annars staðar og það svo að sjá má á peningaseðlum þeirra. Þó svo ekki sé mikið talað um ást frelsarans á peningum. Bandarískt skólakerfi er um margt mjög sérstætt í okkar augum og þar vaxa ýmsir kynlegir kvistir. Eitt af því sem þar hefur rutt sér til rúms hin síðari ár er nokkuð sem við getum kallað heimaskólun (home-schooling) en það byggist á því að börn ganga ekki í hefðbundna skóla heldur er þeim kennt heima og kennslan kvað vera heldur einhæf og helst miða að því að læra Biblíuna utanbókar og frekar einstrengingslega túlkun hennar, enda að miklu leyti hvítasunnumenn sem standa að þessu. Úr þessum heimaskólum fara börn í sérstaka miðskóla þar sem innrætingin heldur áfram og er nú í raun ekki lengur bara hægt að tala um innrætingu heldur beinlínis heilaþvott. Og við bætast sumarbúðir þar sem sums staðar er gengið afar langt í þessu, næstum alveg upp í það að kenna börnunum vopnaburð í þágu málstaðarins. Yfirvöld líta að mestu framhjá þessu enda einn hluti hins bandaríska frelsis, og líklega sá helgasti, frelsi foreldra til að mennta börn sín samkvæmt eigin vilja. Má í þessu sambandi líka minna á herskólana svokölluðu sem uppreisnargjörnum unglingum hefur gjarnan verið komið í.

 Það eru þess vegna ekki aðeins múslimarnir sem eru að ala upp ungliða til að deyja fyrir Drottinn. Kristnir menn eru því miður ekki lausir við þetta. Hér er verið að ala upp kynslóðir ofstækismanna sem engu eira. Hér á landi höfum við verið blessunarlega laus við svona fyrirbæri. Heilaþvottur þekkist hér helst í sambandi við ýmsar tegundir áfengismeðferðar og hjá vissum sértrúarflokkum sem gjarnan leita sér nýrra félaga þar sem fólk er veikt fyrir vegna geðbilunar eða fíknar. Nokkur umræða hefur orðið hér um einkaskóla en enn sem komið er er fyrst og fremst talað um að slíkir skólar geti stuðlað að fjölbreytni í kennsluaðferðum. Þá hefur til dæmis Siðmennt örlítið látið til sín taka trúarlega innrætingu í skólum og einmitt farið inn á þessa hættulega braut að þar séu foreldrarnir sem eigi að ákveða hvaða menntun börnin hljóti. Þetta er þó að mestu, hygg ég, fyrir misskilning. Einnig er til að börnum sé haldið frá t.d. jólaundirbúningi vegna trúarskoðana foreldranna og held ég að kennarar taki ekki nógu alvarlega á mannréttindabrotum af því tagi. En ef einkaskólar og einkakennsla fá að þróast í friði þá kann svo að fara að foreldrarnir fari að hlutast til um það hvað kennt sé í krafti þess að þeir greiði fyrir kennsluna og séu því neytendur. Fyrir þessari hættu ber mönnum að vera vakandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband