Umhverfi og þjóðremba

Loftslagsþættir ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöldum er allrar athygli verðir þó svo að margt sem þar er sagt sé eins og blaut tuska sem varpað er framan í mann. Maður fyllist stundum óskaplegri svartsýni þegar maður heyrir heimsendaspárnar sem þarna koma stundum. Sunnudaginn 7. apríl var einn slíkur þáttur á dagskrá en svo kaldhæðnislegt sem það nú er þá var þar á undan sýndur langur auglýsingapakki þar sem bensínfrekir sportjeppar af ýmsu tagi voru mjög áberandi og manni var hugsað til þess hversu mörgum milljörðum við fórnum á hverju ári á altari hinnar kolefnispúandi heilögu blikkbelju. Á sama tíma erum við að eyða tímanum á alþingi í að ræða hinn svokallaða 3. orkupakka. Vekur það athygli að helstu andstæðingar innleiðingar hans eru helstu fulltrúar þjóðrembu poppulismans á Íslandi, miðflokkurinn og flokkur fólksins hennar Ingu Sælands. Þetta fólk óttast mjög fullveldisafsal ef evrópusambandi fari að hluta sér til um orkumál en fylgjendur segja að það gerist aðeins ef við leggjum sæstreng til evrópu og slíkt þurfi alþingi að samþykkja. Hér stendur einmitt hnífurinn í kúnni, í umhverfislegu tilliti er það örugglega hið besta mál að við leggjum slíkan streng og slíkt myndi td gjörbreyta málum fyrir færeyinga. Þetta kynni að hækka orkuverð á Íslandi en maður spyr sig hvort það sé ekki til vinnandi ef við getum lagt okkar lóð á vogarskálar þess að vistvænir orkugjafar verði meira notaðir í Evrópu. Við stöndum frammi fyrir því að í loftlagsmálum er ekkert til í rauninni sem heitir fullveldi, mannkynið allt verður að berjast saman gegn þessarri vá. Svo spyr maður að lokum; væri ekki ástæða til að setja bann við auglýsingum á bensínfrekum bílum eins og bannað er að auglýsa áfengi því það skaðar einstaklinga og fjölskyldur, misnotkun bensíns og olíu skaðar allt mannkynið.


Götótt velferð

Hún er svolítið götótt velferðin sem samið var um á dögunum. Þetta kom berlega í ljós í kastljós þætti kvöldsins í kvöld. Þar var rakin saga 9 ára drengs frá Vestmannaeyjum sem ekki fær greidda meðferð vegna tannholds vandræða frá sjúkratryggingum. Svo hlálega vill til að þegar drengurinn kemst á unglingsaldur og þessi galli veldur eftil vill alvarlegum líkamslítum þá munu sjúkratryggingar greiða helmingi meira fyrir aðgerðina, sérkennileg leið til að spara peninga. Konukind sú sem var til svara fyrir sjúkratryggingar var öll þrælbundin í lög og reglugerðir af öllu tagi sem hún hefur sennilega skilið minnst í sjálf og auðvitað skilur hún ekki þau grundvallaratriði að lög og reglur eru ekki til þess gerð að spara eitthvað fyrir ríkiskassann hans Bjarna Ben. Lög og reglur eiga auðvitað fyrst og fremst að þjóna þeim tilgangi að vera til verndar almenningi gagnvart handhöfum valdsins. Þau eiga að hamla misbeitingu þess en ekki stuðla að henni. 8 milljónir skipta máli fyrir langveikt barn en ekki svo miklu máli fyrir byggingu nýja fína spítalans hennar Svandísar. 


Fjölmiðlasirkus

Það var verið að undirrita kjarasamninga fyrir nokkrum mínútum, að undangengnum þessum hefðbundna fjölmiðlasirkus sem byrjaði eiginlega að fullum krafti fyrir um það bil einum sólarhring, þegar búið var að blása til fjölmiðlafundar með forsætisráðherra og forkólfum aðila vinnumarkaðarins. Síðan hefur þessum fjölmiðlafundi ítrekað verið frestað. Alltaf á eftir að ljúka einhverjum smáatriðum, maður spyr sig hvort núna sé deilt um hvort setja eigi kommu hér eða þar eða hvort eigi að segja örugglega eða hugsanlega á öðrum stöðum. Það er allavega ljóst að verið er að karpa um einhvern titlingaskít á síðustu metrunum líkt og venjulega. Ekki er enn orðið ljóst hvað í samningnum fellst í smáatriðum, menn fara frjálslegum orðum um lífskjarasamning og allir dásama hversu stórkostlegur hann verður en vitanlega verður ekki samið um þau grundvallaratriði sem þarf um að semja og vísast að þessi samningur muni á fáeinum mánuðum brenna upp og verða að raunum eldsneyti á núverandi verðbólgubál þar sem fyrsta fórnarlambið verður auðvitað vesalings krónan okkar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband