Færsluflokkur: Bloggar

Fíflalæti

Söngvakeppni sjónvarpsins, sú sem er hinn árvissi undanfari júróvisjón poppsins, stendur nú sem hæst. Að sjálfsögðu sitja allir límdir við skjáinn og bíða eftir úrslitunum. Því miður verður að segjast að í ár hefur keppnin að sumu leiti þróast upp í fíflalæti. Maður heyrir fólk arga og garga mest í útsendingunni svo vart má heyra það sem fram fer. Það má segja að útkoman sé ekki sú versta sem búast mátti við, besta lagið er ennþá inni en hvort það stendur sig í þessari miklu fjölskyldu skemmtun, sem úrslita kvöldið á að verða. Maður spyr sig hvers vegna þessi undankeppni þarf að vera einhver hátíð fyrir reykvískar kjarnafjölskyldur. Þeirri hugmynd er hér varpað upp hvort ekki mætti færa keppnina meira út í landshlutana. Til dæmis að forkeppnir yrðu haldnar á 2-3 stöðum á landinu. Aðal atriðið er það þó að við veljum atriði sem verður okkur ekki til skammar þó svo við vonandi vinnum ekki júróvisjón þar sem við höfum enga innviði á landinu til að taka við slíkum viðburði. Þessir innviðir eru eftirvill til á mesta þenslusviði landsins en nánast engir utan þess þannig að álagið yrði of mikið. Áður en við tökum í júróvisjón þurfum við að byggja upp innviði allstaðar á landinu.


Okurflug

Meðal efnis í umdeildri samgönguáætlun sem er víst búið að afgreiða er lagt til að innanlandsflug verði að helmingi niðurgreitt fyrir íbúa í yfir tiltekinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað mjög gott og blessað útaf fyrir sig þó manni hefði fundist að fljótvirkara hefði verið að aflétta einokun á innanlandsflugi sem er í höndum þessa flugfélags sem búið er að taka sér fínt enskt nafn, þó þess hlutverk sé að annast þjónustu á íslandi en þeir horfa bara á túristan. Fljótvirkasta leiðin væri að koma á samkeppni að minnsta kosti á helstu leiðum. Þessi niðurgreiðsla hefur nefnilega þann ókosts að menn veigra sér við að flytja nauðsynlega þjonustu út í landshlutana sem um ræðir. Framsóknarmenn hreykja sér sérstaklega að því að nú eigi sveitavargurinn greiðari leið í höfuðborgina. Einhvernveginn fyndist mér skynsamlegra að verja þessu fjármagni í að efla sterka þjónustukjarna í landshlutunum sem hefði sem mest sjálfræði og að gera landshlutana sem mest sjálfbæra. Hvað framtíð innanlandsflugsins varðar þá finnst manni einsýnt að það verði í framtíðinni flutt til keflavíkur og hraðlest knúin rafmagni tengi Keflavík við Reykjavík. Í Vatnsmýrinni muni svo rísa vistvæn byggð. Eins og stendur er innanlandsflugið mjög vanþróað og til að bæta reksturinn fækkar enska nafnið bara ferðum og minnkar sætaframboð til að halda okrinu uppi afslættir fyrir aldraða og öryrkja heyra sögunni til en einstaka sinnum er veittur 99% aflsáttur fyrir börn, eins og börn séu fátækustu Íslendingarnir.


Svínvetningabraut

Það er mikið rætt um samgöngumál þessa dagana og sýnist sitt hverjum. Í öllu talinu minnist enginn á lagningu Svínvetningabrautar sem sagt er að sé ein arðbærasta framkvæmd í vegamálum sem hægt er að ráðast í. Þessi leið kvað stytta hringveginn um 16km en hefur að vísu þann ókost að Blönduós verður ekki lengur í þjóðbraut og hefur þrýstingur þaðan valdið því að ekki hefur verið rætt þann möguleika, sem vel væri þó hægt að framkvæma og greiða með vegtollum. Menn verða að hugleiða það að útfrá umhverfisverndar og sparnaðar sjónarmiðum lítur markmiðið með samgöngubótum fyrst og fremst að tryggja öryggi samgangna og stytta vegalengdir. Í þessu sambandi má nefna að auðvitað verða tröllaskagagöng gerð þó það verði ef til vill fyrr en eftir 15 til 20 ár. Menn einblína á þetta svæði í kringum höfuðborgina, einfaldasta leiðin til að laga hlutina þar væri að gera samgöngu innan þess svæðið gjaldgrjálsar og þá afla jafnvel til þess fjármagns með einhverskonar gjaldi fyrir notkun á þessum samgöngum af skattfé og borgarlínan eins og hún er hugsuð í dag er hérna engin lausn. Að hún geti verið umhverfisvæn lausn, er hún álíka fjarlægur möguleiki og til dæmis tröllaskagagöngin.


Hvíta teppið

Hið hvíta teppi vetrarins liggur nú yfir landinu. Undir því hvílir gróðurinn og sefur rótt en hann vaknar vonandi að vori. Vissulega veitir þetta hvíta teppi gróðri landsins skjól og hlýju og það gleður margan manninn að renna sér á því á skíðum sínum og snjóbrettum. Þetta teppi er þó ekki með öllu gallalaust. Þannig á það til að vöðlast mjög upp, til að mynda hjá fólki sem á erfitt með gang og veldur það meðal annars allt að því innilokun hjá fólki í hjólastólum. Ekki bætir úr skák að hálka er mjög til trafala. Stundum finnst manni líka sem bæjaryfirvöld séu ekki mjög dugleg að greiða för fólks þannig er miðbærinn oft svo illa mokaður að ekkert aðgengi er að veitingastöðum og annarri þjónustu og P-merkt stæði eru oft stórhættuleg vegna þess þau eru hálkuvarin. Í sumum löndum, til að mynda Svíþjóð, fær aldrað og fatlað fólk stuðning frá ríkinu til að dvelja í sólarlöndum yfir hörðustu vetrarmánuðina. Á Íslandi ber slíkt vott um frekju að minnast á slíkt. Hér eru menn eyðandi peningum í að borga laun bankastjóra eða að byggja hallir upp á marga milljarða yfir verðlausar krónurnar sínar í stað þess að losa það fólk sem erfitt á undan hvíta teppinu.


Samgönguvitleysa

Það er verið að ræða samgönguáætlun og nýjasta vendingin í því máli er þessi hugmynd með veggjöld. Veggjöld geta svo sem verið góð og blessuð ef flýta þarf fjárfrekum framkvæmdum. Gott dæmi um þetta eru hvalfjarðargöngin, auðvitað, og svo Vaðlaheiðagöngin þótt innheimta veggjalda þar hafi verið hið mesta klúður í upphafi. Það að setja veggjöld til að framkvæma einstaka hluti eins og þessar hraðbrautir út af Reykjavík er dáldill annar hlutur. Nú skal viðurkennast að fólk sem vill endilega búa á þessu dýra streytuvaldandi mengunarsvæði verður auðvitað að bera af því kostnaðinn. Það er varla hægt að ætlast til að gera það dýrari kost fyrir sveitavarginn að sækja þangað þjónustu. Auk þess sem að hraðbrautir kalla ef eitthvað er á aukna bílaumferð sem ekki er neitt sérstaklega umhverfisvæn eins og við vitum öll. Þetta með húsnæðistillögunum virðist aðeins verða til að staðfesta ákveðna kerfisstöðu. Menn eru að byggja þarna upp gríðarstórt atvinnusvæði frá Borgarnesi í vestri til Helli í austri. Auðvitað hefðu menn átt að skoða öll þessi mál í samhengi. Efla hefði þurft fleiri atvinnusvæði og setja í þau fjármagn. Til dæmis er Eyjafjarðasvæðið frá Siglufirði að húsavík orðið öflugt sjálfbært atvinnusvæði og því svæði mætti einnig huga að norðanverðum vestfjörðum og miðausturlandi. Í stað þessarar samgöngu vitlausu sem að Sigurður ætlar að keyra í gegn þyrfti að koma skipulag sem bigðist á byggingu sjálfbærra atvinnusvæða sem víðast um landið í stað mengandi umferðarkraðaks á suðvesturhorninu.


Gamaldags

Íslenska okursamfélagið er alveg óskaplega gamaldags að mörgu leyti. Þversögnin er sú að Íslendingar eru ein tækjaglaðasta þjóð í heimi og líklega er skjágláp hvergi meira en hér á landi. Hvort sem það er þess vegna eða vegna annarra ástæðna þá er þjóðfélagið óskaplega gamaldags. Við erum með miðstýrt en samt afar flókið stjórnkerfi. Við erum með kjaramál eins og fyrir mörgum áratögum þar sem menn semja fyrst og fremst um verðbólgu á meðan þjóðfélaginu er stýrt af gamaldags hagsmuna poturum í atvinnulífinu, sem fyrst og fremst hugsa um að græða peninga. félagslega kerfið hér er fyrst og fremst í þágu ríkiskassans en ekki skjólstæðinga sinna. Nýjasta dæmið er það hvernig hinn vinstri græni félagsmálaráðherra ætlar að takmarka aðgengi að sjúkraþjálfurum með því að fækka þeim skiptum sem að ríkið niðurgreiðir. Á sama tíma og menn eru að hugsa um einhvern margmiljarða spítala sem aldrei verður hægt að reka vegna skorts á starfsfólki. Landsbankinn okkar blessaður eyðir 9 milljörðum í nýjar höfuðstöðvar í stað þess að eyða þeim í eitthvað sem gagnast okkur öllum vel, þar hafa menn líklega aldrei heyrt getið um rafræn viðskipti. Þá er vert að minnast á sjálft ríkisútvarpið sem telur sig enn vera í hlutverki eins konar bónda sem að dæmir höfuðborgarmenningunni til sveitabarnsins á hundaþrúgunum svo hann riðjist ekki allur á mölina en flökkusaga segir að einhver ráðherra að ég held Tryggvi Þórhallsson hafi sagt þetta á sínum tíma. Það er eins og sá hluti sem ekki býr þarna eigi sér enga menningu eða reisn. Og meðan steinsteypu fjöllin rísa og risa hraðbrautirnar teygja sig í ymsar áttir eykst koltvísíringurinn í loftinu, veður gerast válynd og við stefnum að ragnarrökum.


Kökunni skipt

Þá er búið að bera þjóðarkökuna fram og menn eru byrjaðir að rífast um það hvernig henni skuli skipt, hverjir fái vænustu sneiðarnar. Sumir vilja þó ekkert hugsa um að skipta þessari köku eins og hún er heldur stækka hana og sjá þá hvernig henni verði best skipt. Það er þetta eilífa pex og rifrildi um þessa blessuðu köku sem öllum þykir afar bragðgóð. Vissulega eru kjaramálin alltaf erfið viðfangs, ekki síst í þessu íslenska okursamfélagi. Róttækir verkalýðsleiðtogar vilja ólmir semja um verðbólgu en aðrir vilja fara sér hægar og feta einhverja skynsamlega slóð. En einhvernvegin finnst manni menn alltaf missa sjónar á hinu raunverulega þjóðfélagsmeini sem þetta dæmalausa okursamfélag er drifið áfram af, það er þessum krónuvesalingi sem menn nýðast stöðugt á þegar fólk reynir að ná sér í einhverja hungurlús í kauphækkun. Auðmenn fá gengisfellinguna strax bætta með því að hækka sína taxta en almenningur situr í súpunni. Væri nú ekki ráð að fólk tæki höndum saman og reyndi að koma okrinu burt og semja um stöðugleika, lægri vexti, ókeypis heilbrigðiskerfi og réttlátari skatta. Það græða allir á betra Íslandi.


Ófær dagskrárgerð

Önnur serían af Ófærð var frumsýnd með pompi og prakt í ríkiskassanum á annan í jólum. Auðvitað ríkti mikil eftirvænting en heldur urðu margir svektir því einhvernveginn komst efni þáttarins illa til skila vegna þess hve raddir leikaranna voru óskýrar og eitthvert einkennilegt suð heyrðist líka í upptökunni. Urðu vitanlega af þessu viðbrögðin nokkur en einhverjir þarna innanborðs svöruðu að ekkert hefði verið að útsendingunni, skýringin væri sennilega sú að fólk væri bara orðið svo óvant því að hlusta á íslensku í sjónvarpi að það skildi hana ekki lengur. Þetta fannst manni fremur snautlegt svar og mjög í þessum leiðinlega gamla anda sem enn ríkir hjá Ríkisútvarpinu þar sem hroki og fyrilitning gagnvart fólkinu í landinu var alltof ráðandi en hefur þó sem betur fer mikið minnkað eftir því sem áhrif gömlu góðu útvarpsfjölskyldunnar fara þverrandi þó þeirra gæti ennþá eilítið. Vera má líka að þessi lélega útsending hafi verið eitthvað staðbundin og kann það að skýra það hversu létt þeir taka þarna á málunum. Hjá hinu háæruverðuga útvarpi Reykjavík skiptir landsbyggðin afar littlu máli nema þegar kemur að innheimtu útvarpsgjaldsins.


Óbein kostun

Á miðvikudögum er í sjónvarpi allra landsmanna þátturinn Sunnudags kiljan. Rétt og sagt er í kynningunni er það "ómissandi þáttur fyrir bókaunnendur". Eitt er þó athyglisvert í sambandi við þátt þennann en það er að á undan honum og eftir er alltaf sama auglýsingin frá ákveðinni bókaverslun. Einhvernveginn þá finnst manni þetta lykta örlítið af kostun, þó að hún sé falin undir yfirskyni auglýsingar. Þetta leiðir hugann að hlutverki okkar ástsæla ríkisútvarps. Maður spyr sig hvort skattgreiðendur þessa lands beri einhver skylda til að fjármagna stöð sem stendur í harðvítugri samkeppni á auglýsingamarkaði höfuðborgarsvæðisins og dettur manni sérstakleg í hug rás 2 í þessu sambandi. Svo virðist sem hún sé orðin í dag eitt alsherja svæðisútvarp Reykjavíkur og nágrennis og sé eiginlega í engu frábrugðin bylgjunni og öðrum einkastöðvum. Maður skilur ekki alveg tilganginn með tilveru hennar, ekki er hér þó verið að leggja til, eins og hjá ungu frjálshyggju krökkunum, að hún verði seld heldur að henni verði skipt upp í 3 stöðvar; á Akureyri, Ísafirði og Egilstöðum með einhverri samvinnu á milli. Þess má einnig geta að ávarpið "útvarp Reykjavík" mætti gjarna verða kvatt með ávarpi útvarpsstjóra á gamlárskvöldi. Vonandi hefur útvarpsstjóri ekki alveg látið glepjast að ljósadýrðinni fyrir sunnan eftir að hann flutti frá Akureyri.


Gengið í klaustur

Nú rétt fyrir mánaðamót nóvember desember gengu sex þingmenn í klaustur, ekki það að þeir ætluðu að fara að stunda eitthvað meinlæta líf heldur var ætlunin að detta nú ærlega í það, meira að segja á vinnutíma. Urðu mennirnir líklega það drukknir að þeir tóku ekkert eftir því að kona ein sat við nálægt borð og tók allt þeirra tal upp með símanum sínum. Nú kann það að orka tvímælis að taka upp einkasamtöl fólks þegar það er á fylleríi á einhverjum bar en í þessu tilfelli var bara um að ræða fulltrúa þjóðarinnar og eins og aðrir vinnuveitendur þá finnst manni að þjóðin, sem vinnuveitandi þessara manna, hafi rétt á því að vita hvað þeir aðhafast í vinnutímanum. Er það ekki oft brottrekstrarsök þegar að menn drekka í vinnunni, spyr sá sem ekki veit? Og nú ætlar þetta lið að bíta höfuðið af skömminni með því að höfða mál gegn konunni sem tók upp fyllibytturnar. Þeir átta sig auðvita ekki á því að þetta er auðvita vísasta leiðin til að gera hana að píslarvotti. Þetta á ekki eftir að hressa miðflokkinn við en einni hlið þessa máls hefur ekki verið mikið velt upp, þeirri hræsni sem að sumir af þessum þingmönnum sýna í áfengismálum. Þeir hafa staðið harðir gegn öllum tillögum í að breyta fáránlegum áfengislögum á Íslandi, t.d. því að ekki megi selja bjór í búðum en geta sjálfir dottið í það á virkum degi þó þeir treysti öðrum ekki til að gera slíkt hið sama. Það er kominn tími til að þetta lið fari að verða þess verðugt að eitthvað mark sé á því takandi eða erum við orðin svo skrítin þjóð að við bara verðskuldum svona þingmenn? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband