Samgönguvitleysa

Það er verið að ræða samgönguáætlun og nýjasta vendingin í því máli er þessi hugmynd með veggjöld. Veggjöld geta svo sem verið góð og blessuð ef flýta þarf fjárfrekum framkvæmdum. Gott dæmi um þetta eru hvalfjarðargöngin, auðvitað, og svo Vaðlaheiðagöngin þótt innheimta veggjalda þar hafi verið hið mesta klúður í upphafi. Það að setja veggjöld til að framkvæma einstaka hluti eins og þessar hraðbrautir út af Reykjavík er dáldill annar hlutur. Nú skal viðurkennast að fólk sem vill endilega búa á þessu dýra streytuvaldandi mengunarsvæði verður auðvitað að bera af því kostnaðinn. Það er varla hægt að ætlast til að gera það dýrari kost fyrir sveitavarginn að sækja þangað þjónustu. Auk þess sem að hraðbrautir kalla ef eitthvað er á aukna bílaumferð sem ekki er neitt sérstaklega umhverfisvæn eins og við vitum öll. Þetta með húsnæðistillögunum virðist aðeins verða til að staðfesta ákveðna kerfisstöðu. Menn eru að byggja þarna upp gríðarstórt atvinnusvæði frá Borgarnesi í vestri til Helli í austri. Auðvitað hefðu menn átt að skoða öll þessi mál í samhengi. Efla hefði þurft fleiri atvinnusvæði og setja í þau fjármagn. Til dæmis er Eyjafjarðasvæðið frá Siglufirði að húsavík orðið öflugt sjálfbært atvinnusvæði og því svæði mætti einnig huga að norðanverðum vestfjörðum og miðausturlandi. Í stað þessarar samgöngu vitlausu sem að Sigurður ætlar að keyra í gegn þyrfti að koma skipulag sem bigðist á byggingu sjálfbærra atvinnusvæða sem víðast um landið í stað mengandi umferðarkraðaks á suðvesturhorninu.


Gamaldags

Íslenska okursamfélagið er alveg óskaplega gamaldags að mörgu leyti. Þversögnin er sú að Íslendingar eru ein tækjaglaðasta þjóð í heimi og líklega er skjágláp hvergi meira en hér á landi. Hvort sem það er þess vegna eða vegna annarra ástæðna þá er þjóðfélagið óskaplega gamaldags. Við erum með miðstýrt en samt afar flókið stjórnkerfi. Við erum með kjaramál eins og fyrir mörgum áratögum þar sem menn semja fyrst og fremst um verðbólgu á meðan þjóðfélaginu er stýrt af gamaldags hagsmuna poturum í atvinnulífinu, sem fyrst og fremst hugsa um að græða peninga. félagslega kerfið hér er fyrst og fremst í þágu ríkiskassans en ekki skjólstæðinga sinna. Nýjasta dæmið er það hvernig hinn vinstri græni félagsmálaráðherra ætlar að takmarka aðgengi að sjúkraþjálfurum með því að fækka þeim skiptum sem að ríkið niðurgreiðir. Á sama tíma og menn eru að hugsa um einhvern margmiljarða spítala sem aldrei verður hægt að reka vegna skorts á starfsfólki. Landsbankinn okkar blessaður eyðir 9 milljörðum í nýjar höfuðstöðvar í stað þess að eyða þeim í eitthvað sem gagnast okkur öllum vel, þar hafa menn líklega aldrei heyrt getið um rafræn viðskipti. Þá er vert að minnast á sjálft ríkisútvarpið sem telur sig enn vera í hlutverki eins konar bónda sem að dæmir höfuðborgarmenningunni til sveitabarnsins á hundaþrúgunum svo hann riðjist ekki allur á mölina en flökkusaga segir að einhver ráðherra að ég held Tryggvi Þórhallsson hafi sagt þetta á sínum tíma. Það er eins og sá hluti sem ekki býr þarna eigi sér enga menningu eða reisn. Og meðan steinsteypu fjöllin rísa og risa hraðbrautirnar teygja sig í ymsar áttir eykst koltvísíringurinn í loftinu, veður gerast válynd og við stefnum að ragnarrökum.


Kökunni skipt

Þá er búið að bera þjóðarkökuna fram og menn eru byrjaðir að rífast um það hvernig henni skuli skipt, hverjir fái vænustu sneiðarnar. Sumir vilja þó ekkert hugsa um að skipta þessari köku eins og hún er heldur stækka hana og sjá þá hvernig henni verði best skipt. Það er þetta eilífa pex og rifrildi um þessa blessuðu köku sem öllum þykir afar bragðgóð. Vissulega eru kjaramálin alltaf erfið viðfangs, ekki síst í þessu íslenska okursamfélagi. Róttækir verkalýðsleiðtogar vilja ólmir semja um verðbólgu en aðrir vilja fara sér hægar og feta einhverja skynsamlega slóð. En einhvernvegin finnst manni menn alltaf missa sjónar á hinu raunverulega þjóðfélagsmeini sem þetta dæmalausa okursamfélag er drifið áfram af, það er þessum krónuvesalingi sem menn nýðast stöðugt á þegar fólk reynir að ná sér í einhverja hungurlús í kauphækkun. Auðmenn fá gengisfellinguna strax bætta með því að hækka sína taxta en almenningur situr í súpunni. Væri nú ekki ráð að fólk tæki höndum saman og reyndi að koma okrinu burt og semja um stöðugleika, lægri vexti, ókeypis heilbrigðiskerfi og réttlátari skatta. Það græða allir á betra Íslandi.


Ófær dagskrárgerð

Önnur serían af Ófærð var frumsýnd með pompi og prakt í ríkiskassanum á annan í jólum. Auðvitað ríkti mikil eftirvænting en heldur urðu margir svektir því einhvernveginn komst efni þáttarins illa til skila vegna þess hve raddir leikaranna voru óskýrar og eitthvert einkennilegt suð heyrðist líka í upptökunni. Urðu vitanlega af þessu viðbrögðin nokkur en einhverjir þarna innanborðs svöruðu að ekkert hefði verið að útsendingunni, skýringin væri sennilega sú að fólk væri bara orðið svo óvant því að hlusta á íslensku í sjónvarpi að það skildi hana ekki lengur. Þetta fannst manni fremur snautlegt svar og mjög í þessum leiðinlega gamla anda sem enn ríkir hjá Ríkisútvarpinu þar sem hroki og fyrilitning gagnvart fólkinu í landinu var alltof ráðandi en hefur þó sem betur fer mikið minnkað eftir því sem áhrif gömlu góðu útvarpsfjölskyldunnar fara þverrandi þó þeirra gæti ennþá eilítið. Vera má líka að þessi lélega útsending hafi verið eitthvað staðbundin og kann það að skýra það hversu létt þeir taka þarna á málunum. Hjá hinu háæruverðuga útvarpi Reykjavík skiptir landsbyggðin afar littlu máli nema þegar kemur að innheimtu útvarpsgjaldsins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband